Íslendingur á ljónaveiðum

Ég fór í smá gönguferð fyrir nokkru. Það er svosem ekkert merkilegt við að fara í gönguferð, ég geri það oft. Nema í þetta sinn fór ég á stað sem ég hef ekki farið á í nokkur ár og þar sem svæðið er töluvert stórt ákvað ég að fara ótroðnar leiðir (þ.e.a.s. ótroðnar af mér) Ég er svotil ný komin á svæðið þegar ég sé stórt skilti sem á stendur 'COUGARS'. Jú þið skiljið þetta rétt.  Fjalla ljón hafði látið sjá sig á svæðinu fyrir nokkrum dögum. Heyrðu... þetta gæti orðið spennandi labb eftir allt saman!  Ég geng á leið og held uppí móti þar sem það tekur svo ágætlega í rassvöðvanna og þeim veitir ekki af smá hreyfingu. Göngu troðningurinn sem ég er á er frekar mjór með háu grasi meðfram honum. Grasið er nógu þurrt að það skrjáfar í því þegar ég rekst í það. Á göngunni stoppa ég nátturulega öðru hverju til að taka myndir af pöddu lífinu.  Allt í einu heyri ég skrjáfur. Ég stífna í augnablik... en ekki lengi þar sem ég veit að ég er ekki komin nógu langt inní óvissuna til að ljóni detti einusinni í hug að kíkja á mig.  Áfram held ég og er komin töluvert hátt upp á hæðina þegar aftur heyri ég skrjáfur!  Jæja nú fer adrenalínið í gang fyrir alvöru, og ljóna sögur koma sér vel fyrir í kollinum á mér.

  Ég á vinkonu hérna úti sem sagði mér að einu sinni hefði hún verið að skokka úti í nátturunni þegar ljónynja nokkur hefði tekið með henni sporið um stund. Síðan eftir nokkrar mínutur af samferðinni hefði ljónynjan bara farið sinn veg og ekki sést aftur.  ... Heyrðu... væri það nú ekki alveg frábært að hafa svipaða sögu að segja úr gönguferðinni minni!!

  Auðvitað varð ég að minna sjálfa mig á í miðri hugsun að það væri nú eiginlega ekkert sniðugt ef ég sæi þarna ljón. Það gæti nú bara hreinlega borðað mig upp til agna... og maður getur nú ekki sagt sína sögu þegar búið er að borða mann!   Spenningurinn er semsagt farinn að aukast. Mig dauðlangar að hitta ljón, en er samt skíthrædd við að það gerist í alvöru.  Áfram held ég og hjartað tekur heljar kipp enn einu sinni þegar ég heyri mikið og hátt skrjáfur svolítið í burtu frá mér... í nágrenni við tré sem ég sé í grenndinni. Ég snarstoppa. Horfi vel í kring um mig en sé ekkert. (auðvitað ekki... hvaða fjalla ljón lætur bráðina sjá sig!! ) Ég heyri ekkert heldur þannig að ég held áfram skref fyrir skref með hjartað í brókunum og heilann niðri í hálsi.

  Nú er ég komin alveg ókunnar slóðir og ég hef ekki séð nokkurn lifandi mann í hálftíma eða svo. Skildi einhver heyra í mér þegar ljónið réðst á mig? Bíddu, byrja ljón ekki á hálsinum þegar þau ráðast á fólk... og... eru ekki raddböndin falin einhverstaðar í hálsinum? Þau eru náttúrulega bráð vitur þessi kvikindi. Geta borðað mig alla alveg óáreitt ef þau byrja á raddböndunum!!   Áfram geng ég, ósköp hægt, og vona að þessi stígur sem ég er á endi einhvern tíma í nágrenni við fólk. Ég er löngu hætt að eyða tíma í að skoða pöddur. (I have a bigger fish to fry!) Ég er nú samt með myndavélina á lofti ef ske kynni að ég gæti smellt af einni mynd eða svo rétt áður en ég verð étin.   Aftur heyri ég skrjáfur, í þetta sinn mjög nálægt mér og svei mér ef ég sé ekki hreyfingu. Hreyfingin var beint fyrir framan mig og lágt við jörðu. Ég stoppa og góna út í grasið. AHA! haldiði ekki að ég hafi ekki bara fundið ljónið. Situr þarna salla rólegt beint fyrir framan mig á steini að sóla sig. Ég stóðst ekki mátið og smellti af mynd áður en ljónið hoppaði aftur út í grasið, eflaust í leit að bragðbetri bita. Áfram hélt ég þar til ég kom í manna byggðir og hef engum sagt söguna af ljóninu sem breyttist í eðlu.    Já það fer nú enginn nema alvöru Íslendingur á ljónaveiðar í hnéháu grasi.  Og við ræðum ekki meira um það.


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 identicon

Grrrrr. Sko, ég vil ekki hafa að þú sért að taka svona sjénsa, annars er mér að mæta!! Ég er illskeyttari en eðla en kannski skárri en ljón

Ásta Jóna (IP-tala skráð) 5.2.2008 kl. 12:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband